Jákvætt hugarfar, lykill hamingjunnar

Jákvætt hugarfar, lykill hamingjunnar

Elísa Berglind þjálfar flottar konur nokkrum sinnum í viku og heldur úti heimasíðuna www.rosirnar.is þar sem hægt er að fá nánari upplýsingar um námskeiðin hennar og lesa pistlana hennar. Hún hefur barist við búlemíu og inná milli anorexíu í 20 ár. Hún hafði betur og vann sjúkdóminn og segist aldrei hafa liðið betur andlega eða líkamlega. Við fengum að birta þennan flotta pistil eftir hana þar sem hún talar um hvað hugarfarið spilar stóran þátt í breytingum og ég er sannfærð um að það skiptir engu hvernig breytingu þú ætlar að fara útí, hugarfarið verður alltaf að fylgja og jákvæðar hugsanir eru stór partur af þessu. 

berglindJákvætt hugarfar, lykill hamingjunnar
Eins og þið margar vitið þá hef ég ávallt haldið því fram að forsenda alls í okkar lífi byggist á hugarfarinu. Ef jákvætt hugarfar er með í för þá er lífið miklu auðveldara. Ragga Nagli spurði í einu blogginu sínu: „Veistu hvað er stærsti áhættuþátturinn fyrir ofátskast? Stíf einhæf megrun, neikvæðar hugsanir um eigið útlit og svarthvíta hetjan“. Þetta er bara nákvæmlega það sem málið snýst um. Neikvæðar hugsanir, ofurkvíði fyrir hinu ókomna, neikvætt sjálfsniðurrif.

Ég held að ég geti fullyrt að ég var heimsmeistari í neikvæðni, skertri sjálfmynd, sjálfspíningu og sjálfsniðurrifi fyrir nokkrum árum síðan. Eftir að hafa nánast drepið sjálfa mig í öfgum átröskunar, þunglyndis og niðurrifs þá hef ég lært að það er fátt jafn mikilvægt og eigin hugsanir. Það sem við hugsum á hverjum degi mótar líf okkar. Fyrsta hugsun dagsins getur mótað daginn sem rétt er að byrja. Enginn nema við sjálfar getum stjórnað því hvað og hvernig við hugsum. Það getur enginn sagt okkur hvað okkur á að finnast eða hvernig okkur á að líða. Við erum sjálfar örlagavaldar okkar eigin lífs.

Lífið er stórkostleg gjöf sem ég er svo heppin í dag að fá að njóta. Fyrir mér er það ekki sjálfgefið. Ég hefði svo auðveldlega getað hagað mér þannig að ég væri ekki hér í dag. Harkalega sagt, en samt satt. Að vera frjáls í höfðinu og í hjartanu er stórkostleg gjöf sem ég gaf sjálfri mér. Auðvitað á ég mína slæmu daga en þeim fer sífellt fækkandi.

Sú leið sem ég ákvað að fara fyrir um 7 árum síðan, þegar ég ákvað að ég ætlaði að lifa lífinu lifandi en ekki í fjötrum eigin neikvæðni er einfaldlega byggð á kenningum hugrænnar atferlismeðferðar. Að breyta neikvæðum hugsunum í jákvæðar. Virkar svo ofur einfalt, en ég ætla ekki, frekar en margir aðrir sem hafa náð að snúa við blaðinu, að ljúga og segja að þetta hafi ekki verið neitt mál. Þetta var stórmál, en borgaði sig svo sannarlega. Enn í dag er ég að glíma við neikvæðar hugsanir og oft stend ég sjálfa mig að því að rífa niður það sem ég geri. Gagnrýna í frumeindir það sem ég gerði, spyrjandi sjálfa mig af hverju ég gerði ekki eitthvað annað eða öðruvísi. Mér finnst mjög skondið að skoða sjálfa mig þegar ég fer í þennan ham. Það sem ég kann hins vegar í dag en kunni ekki áður er að skilgreina hugsanirnar, raða þeim saman og finna ástæðurnar fyrir þessu neikvæða. Oft er ástæðan ekki flóknari en sú að ég hef ekki borðað í marga klukkutíma eða nætursvefninn riðlaðist eitthvað. Ef ég verð svöng, borða ekki klukkutímum saman eða sef illa þá brotna varnir líkamans niður og ég verð ómöguleg, pirruð, leið. En það er ekki þar með sagt að ég sé aumingi eða geti ekki gert neitt rétt. Það er þetta sem ég kann í dag að skilgreina. Ég reyni af fremsta megni að hugsa í lausnum en ekki í vandamálum. Ef það kemur eitthvað upp á sem ég finn að ég ræð ekki alveg við þá staldra ég við og skilgreini það sem er að. Hvað get ég gert til að bæta ástandið? Ekkert sem ég gerði í gær get ég lagað í dag eða strokað yfir, ég veit ekkert um það sem mun gerast á morgun. Ég get hins vegar lagt mitt af mörkum í dag til að halda áfram að vera jákvæð og þakklát og ég get gert allt sem í mínu valdi stendur til að bæta það sem veldur mér vanlíðan. Kvíði, stress og vonleysi eru fylgdarsveinar sem ég vil ekki ganga með. Þess vegna vil ég finna lausnir við aðstæðum sem upp koma og valda mér vanlíðan.

Það er annað sem mér finnst svo merkilegt og það er sú staðreynd að ég hef val. Ég get valið hvort ég vil gera svona eða hinsegin. Ég get valið hvernig ég tekst á við aðstæður. Ég get valið hvernig ég bregst við því sem er sagt við mig og um mig. Ég get valið að vera hamingjusöm, glöð, jákvæð og bjartsýn. Ég get líka valið að vera það ekki. En hvernig verður lífið mitt ef ég vel að vera það ekki? Á þann stað hef ég valið að fara ekki aftur.

Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að ég hef sjaldan verið jafn „þykk“ og ég er í dag. Hins vegar held ég að mér sé líka óhætt að fullyrða að mér hefur aldrei liðið jafn vel í eigin skinni. Andlega er ég sterkari en ég hef nokkurn tímann verið og líkamlega er ég hraust. Þegar ég var í sem versta ástandinu, fjörutíuogeitthvað kíló þá leið mér hörmulega. Dóttir mín gæti örugglega ekki notað fötin sem ég notaði þá. Fötin sem ég á í dag eru eins og keypt í Belgjagerðinni í samanburði við fötin sem ég keypti á sínum tíma í barnadeildum fataverslananna (þar sem ég passaði varla í XS í kvenfatabúðum). Ég hef ekki hugmynd um hvað ég er þung í dag því á vigt hef ég ekki stigið í nokkur ár. Ég þarf að kaupa mér sífellt stærri föt en það er bara ekki að bögga mig. Ég er í góðu formi, andlega og líkamlega. Það er það sem skiptir öllu máli. Að lifa í sátt og samlyndi við mig sjálfa.

Ég er eins og ég er.

Hvernig líður þér í þínu skinni?

Elísa Berglind Sigurjónsdóttir
www.rosirnar.is

Greinin er birt á Heilshugar.com með góðfúslegu leyfi Berglindar, en upphaflega birtist hún hér

Vilt þú skrifa greinar inná Heilshugar.com – ef þú telur þig hafa eitthvað gott og hvetjandi fram að færa, þá væri virkilega gaman að heyra frá þér, netfangið er gudrun@heilshugar.com.,

The following two tabs change content below.
Guðrún Sturlaugs.
Guðrún hefur mikla ástríðu fyrir hollum og góðum mat. Hún hefur haldið úti facebook síðunni Heilshugar síðan 2012 og um mitt ár fór hún að þróa vörur undir merkjum Heilshugar.
Guðrún Sturlaugs.

Latest posts by Guðrún Sturlaugs. (see all)

Y

Related Posts

Að æfa skemmtilega líkamsrækt – pistill eftir Elísu Berglindi

Að æfa skemmtilega líkamsrækt – pistill eftir Elísu Berglindi

Elísa Berglind þjálfar flottar konur nokkrum sinnum í viku og heldur úti heimasíðuna www.rosirnar.is þar sem hægt er að fá nánari upplýsingar um námskeiðin hennar og lesa pistlana hennar. Hún hefur barist við búlemíu og inná milli anorexíu í 20 ár. Hún hafði betur og vann sjúkdóminn og […]

Vigtin – vinur eða óvinur?

Vigtin – vinur eða óvinur?

Elísa Berglind þjálfar flottar konur nokkrum sinnum í viku og heldur úti heimasíðuna www.rosirnar.is þar sem hægt er að fá nánari upplýsingar um námskeiðin hennar og lesa pistlana hennar. Hún hefur barist við búlemíu og inná milli anorexíu í 20 ár. Hún hafði betur og vann sjúkdóminn og […]Leave a Reply

Your email address will not be published.